Þjóðmálastofnun

Social Research Center

Kaflar og höfundar

Kafli 1: Sjálfgengissamfélagið. Leitin að hinu algilda lögmáli

Í þessum kafla skilgreinir Kolbeinn Stefánsson nýfrjálshyggjuna og gerir greinarmun á hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar og hvernig hún birtist í framkvæmd. Hann drepur einnig á nokkrum mikilvægum viðfangsefnum sem ekki er fjallað um í öðrum köflum bókarinnar. Þar ber helst að nefna þær atferlisforsendur sem nýfrjálshyggjan deilir með ýmsum skólum nýklassískrar hagfræði, hugmyndir nýfrjálshyggju um félagslegt réttlæti eins og þær birtast í skrifum Roberts Nozicks, og mikilvægi hagvaxtar fyrir virkni markaðshagkerfa. Kaflanum líkur á kynningu á hinum köflum bókarinnar. 

Kolbeinn Stefánsson er sérfræðingur við Þjóðmálastofnun Háskóla Íslands. Hann lauk MSc. prófi í félagsfræði frá Oxford Háskóla árið 2004 og er að leggja lokahönd á doktorsritgerð í félagsfræði við sama háskóla. Kolbeinn stundar rannsóknir á sviði vinnumarkaðs- og velferðarmála með aðal áherslu á hugmyndafræðilegar forsendur ólíkra velferðarkerfa, viðhorf til velferðarmála og samspil vinnu og heimili.

 

Kafli 2: Fortíðin í nútímanum. Ágrip af hugmyndasögu nýfrjálshyggjunnar

Sveibjörn Þórðarson rekur uppruna nýfrjálshyggju aftur til klassískrar frjálslyndisstefnu og sýnir fram á að forskeitið "ný-" er að mörgu leyti óverðskuldað enda endurvinni nýfrjálshyggjan aðeins gamlar hugmyndir frjálslyndisstefnunnar án þess að taka tillit til þeirra framfara sem hafa átt sér stað innan sálfræðinnar og atferlishagfræðinnar. Hann fjallar einnig um náin söguleg tengsl nýfrjálshyggju og nýklassískrar hagfræði. Niðurstaða hans er að nýfrjálshyggjan sé altæk hugmyndafræði sem byggir á frumstæðum hugmyndum um mannlegt eðli. Fyrir vikið er hætt við að sú samfélagsgerð sem nýfrjálshyggjan boðar stangist á við þarfir manneskjunnar.

Sveinbjörn Þórðarson hefur lokið MSc námi í vísindaheimspeki frá London School of Economics and Political Science og MSc gráðu í vísindasögu frá Edinborgarháskóla þar sem hann leggur nú stund á doktorsnám á því sama sviði.

 

Kafli 3: Vandvirkni eða vitsmunaleg tregða? Um atferlisforsendur nýklassískrar hagfræði 

Í þessum kafla beinum við sjónum okkar að nýklassískri hagfræði. Það má segja að nýklassísk hagfræði sé vísindaleg hliðstæða nýfrjálshyggjunnar. Pär Gustafsson ræðir þær atferlisforsendur sem hagfræðingar gefa sér og nefnir dæmi um hvernig þessar forsendur eru notaðar til að réttlæta nýfrjálshyggjuna. Hann byggir greiningu sína á þeirri þróun sem hefur átt sér stað í Rússlandi frá því árið 1991 og sýnir fram á hvernig þröngt hagfræðilegt sjónarhorn bjó til markað sem er afar frábrugðinn þeirri draumsýn sem málsvarar frjálsra markaða halda á ofti. Ein af ástæðum þess hve illa tókst til við markaðsvæðingu Rússlands er að arkítektum hennar láðist að efla löggæslu- og réttarkerfið. Fyrir vikið varð til mikið svigrúm fyrir skipulagða glæpastarfsemi í efnahagslífi Rússlands. 

Pär Gustafsson lauk doktorsprófi í félagsfræði frá Oxfordháskóla og starfar nú við kennslu og rannsóknir í Linneausháskóla í Svíþjóð. Sérsvið hans er atferlisforsendur félagsvísinda, skipulögð glæpastarfsemi, rússnesk stjórnmál og viðskiptalíf og aðferðafræði félagsvísinda.

 

Kafli 4: Samfélagsleg ábyrgð í viðskiptalífinu. Hugleiðing um bankahrun og Milton Friedman

Ein af lykil hugmyndum nýfrjálshyggjunnar er að ábyrgð stjórnenda fyrirtækja einskorðist við að tryggja hagnað hluthafa fyrirtækisins. Eina samfélagslega ábyrgð stjórenda er því að búa til hagnað. Í þessum kafla fjallar Salvör Nordal um rök Miltons Friedmans fyrir þessari áherslu og finnur á þeim ýmsa annmarka. Salvör bendir á að rök Friedmans geri ráð fyrir umfangsmiklu velferðarríki sem nýfrjálshyggjusinnar eru alfarið á móti á grundvelli þess að sú skattheimta sem er óhjákvæmileg forsenda slíkra velferðarkerfa hafi slæm áhrif á viðskiptalífið. Þá sýnir hún fram á að þessi rökvilla Friedmans sé afleiðing af of verkfræðilegri sýn á hagfræðina sem líti framhjá þeim siðferðislegu spurningum sem lágu til grundvallar hagfræðilegum viðfangsefnum á fyrri tímum. 

Salvör Nordal er forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands. Hún lauk Mphil prófi í heimspeki félagslegs réttlætis frá háskólanum í Stirling og vinnur að doktorsritgerð í heimspeki við háskólann í Calgary.

 

Kafli 5: Nýskipan í opinberum rekstri. Stjórnunarhættir nýfrjálshyggjunnar

Í kafla 3 fjallaði Pär Gustafsson um mikilvægi gangverks markaðarins í hugmyndaheimi nýfrjálshyggjunnar. Í kafla 4 fjallar Mia Vabø um þetta gangverk eins og það birtist í samhengi nýskipunar í opinberum rekstri (New Public Management). Málsvarar nýfrjálshyggjunnar hafa þurft að horfast í augu við að ýmis þjónusta hentar illa til einkareksturs. Lausn nýfrjálshyggjunnar er að innleiða gangverk markaðarins í opinberri þjónustu með því að greina á milli þeirra sem greiða fyrir þjónustuna (hið opinbera) og þeirra sem að veita hana (einkaaðilar) á grundvelli þjónustusamninga. Afleiðingarnar hafa verið mótsagnakenndar og oftar en ekki andstæðar því sem málsvarar nýskipaninnar ætluðu. Mia Vabø greinir frá innleiðslu nýskipaninnar í öldrunarþjónustu í Noregi, en þar leiddi nýskipanin fyrst til þess að þjónustan tók minna tillit til þarfa þjónustuþega en áður en þegar var reynt að bæta það leiddi nýskipanin til þunglamalegs og kostnaðarsams skrifræðis. 

Mia Vabø er með doktorspróf í þjóðfélagsfræði frá háskólanum í Osló. Hún starfar við rannsóknir hjá rannsóknarmiðstöðinni NOVA (Norsk Institutt for forskning om oppvekst, velferd og aldring) í Osló þar sem hún rannsakar framkvæmd velferðarþjónustu.

 

Kafli 6: Árangur frjálshyggjunnar. Samanburður lífskjara í frjálshyggjuríkjum og velferðarríkjum

Aðdráttarafl nýfrjálshyggjunnar fólst ekki síst í því að hún átti að skila aukinni auðlegð og betri lífskjörum. Í þessum kafla ber Stefán Ólafsson árangur engilsaxnesku ríkjanna saman við árangur skandínavísku ríkjanna og notar til þess mikinn fjölda lífsgæðamælikvarða. Engilsaxnesku löndin eru þau lönd sem hafa gengið hvað lengst á braut frjálshyggjunnar en skandínavísku löndin hafa verið helstu fánaberar svokallaðra blandaðra hagkerfa. Þó fyrrnefndu ríkin hafi vissulega náð ágætum árangri á afmörkuðum sviðum er niðurstaða samanburðarins skýr. Framleiðni er a.m.k. jafn mikil í Skandínavíu og í ensku mælandi löndunum. Þá er atvinnuþátttaka þar með mesta móti þrátt fyrir að ríkið spili stórt hlutverk í efnahagslífinu, sem stangast á við kenningar nýfrjálshyggjunnar. Þá er ljóst að árangur skandínavísku þjóðanna er betri en árangur engilsaxnesku landanna á flestum þeim mælikvörðum sem eru notaðir til að bera saman árangur mismunandi þjóða. 

Stefán Ólafsson er prófessor í Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands og stjórnarformaður Tryggingastofnunar ríkisins. Hann lauk doktorsprófi í þjóðfélagsfræði frá Oxfordháskóla. Stefán hefur skrifað bækur og greinar og flutt fjölda erinda um lífskjör, velferðarkerfi, ójöfnuð, vinnumarkaði og samfélagsþróun, svo fátt eitt sé nefnt.

 

Kafli 7: Kynmyndir og kyngervi nýfrjálshyggjunnar

Í köflum 1 til 3 kom fram að nýfrjálshyggjan hvílir á sérkennilegum hugmyndum um mannlegt eðli og atferli. Þessar hugmyndir eiga vissulega við í tilteknum aðstæðum en þær eiga hinsvegar óraunsæjar þegar kemur að stærstum hluta mannlífsins. Sem dæmi má nefna náin samskipti og umönnun. Þessi svið samfélagsins hafa að mestu verið á höndum kvenna, sem skýrir að einhverju leyti hversvegna nýfrjálshyggjan er eins karllæg og hún er. Hér fjallar Þorgerður Einarsdóttir þá orðræðu sem hefur verið ríkjandi á undanförnum árum, en sú orðræða einkennist einmitt af karlmannlegum dyggðum. Niðurstaða Þorgerðar er að þessi orðræða hafi beint sjónum fólks frá því sem raunverulega var að gerast í samfélaginu. 

Þorgerður Einarsdóttir er prófessor í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi í félagsfræði frá Gautaborgarháskóla. Þorgerður hefur rannsakað ýmsa þætti sem lúta að jafnréttismálum og stöðu kynjana, s.s. áhrifum opinberrar stefnumótunnar á samspil vinnu og heimilis og um feðraorlof.

 

Kafli 8: Góður kapítalismi og slæmur. Hugleiðing um verðmæti, þarfir og tilgang efnahagslífsins

Fyrstu sjö kaflarnir einkenndust af gagnrýnni umræðu um nýfrjálshyggjuna. Kafli átta gengur skrefinu lengra og leggur til valmöguleika við núverandi skipulag efnahagslífs og samfélag. Í þessum kafla greinir Giorgio Baruchello frá kenningum Johns McMurtrys, gagnrýni hans á núverandi hagkerfi og hugmyndum hans um markaðshagkerfi sem miðar að því að fullnægja mannlegum þörfum. Þetta felur í sér að fjöldi þátta mannlífsins væru undanskildir markaðnum þar sem það myndi stuðla að aukinni velferð almennings.

Giorgio Baruchello er prófessor við Félags- og hugvísindadeild við Háskólans á Akureyri. Hann lauk doktorsnámi í heimspeki frá Háskólanum í Guelph í Kanada. Á meðal þess sem hann rannsakar er félagsheimspeki, kenningar um gildi og verðmæti og hugmyndasaga. Hann ritstýrir tímaritinu Nordicum-Mediterraneum sem vistað er innan Háskólans á Akureyri.

 

Kafli 9: Rauðir þræðir. Samantekt og niðurstöður

Í þessum kafla dregur Kolbeinn Stefánsson saman helstu þemu bókarinnar og fjallar um nýfrjálshyggjuna í ljósi þeirra. Hann færir rök fyrir því að nýfrjálshyggjan sé altæk hugmyndafræði sem hvílir á óraunhæfum forsendum. Afleiðingin er sú að það er ógerlegt að skipuleggja samfélagið á grundvelli hreinnar frjálshyggju. Jafnvel þó það væri hægt að koma á slíku samfélagi er afar hæpið að það gæti virkað til lengri tíma litið.