Þjóðmálastofnun

Social Research Center

Norrænt öndvegissetur í velferðarrannsóknum (NCoE

Þjóðmálastofnun er meðal þátttakenda í nýju norrænu öndvegissetri í velferðarrannsóknum. Verkefnið hlaut nýlega öndvegisstyrk NordForsk til 5 ára, að upphæð 410 milljónir íslenskra króna. Starfið er undir stjórn prófessors Björn Hvinden hjá NOVA, sjálfstæðri rannsóknarstofnun í velferðarmálum í Noregi, en í hverju Norðurlandanna fimm er öflugur hópur er starfa að verkefninu. Þar er um að ræða félagsvísindafólk frá háskólunum í Stokkhólmi í Svíþjóð, Turku og Tampere í Finnlandi, Kaupmannahöfn og Árósum í Danmörku, auk Háskóla Íslands og háskólanna í Þrándheimi og Osló. 

Stefán Ólafsson prófessor situr í stjórn norræna verkefnisins og stýrir íslensku þátttökunni ásamt Guðnýju Björk Eydal dósent. Íslenskir fulltrúar verða þátttakendur á 10 rannsóknarsviðum sem starfað verður á. Með hverjum íslensku fulltrúanna verður ráðgjafarhópur á Íslandi. 

Megin viðfangsefni norræna rannsóknarsetursins er endurmat á norrænu velferðarríkjunum, í ljósi breyttra þjóðfélagsaðstæðna. Spurt verður hvort norrænu ríkin búi enn öll við hina norrænu velferðarskipan (the Nordic Model), í hvaða mæli þau séu enn að skila þeim árangri sem að var stefnt og hvernig þau hafa aðlagast breyttum þjóðfélagsaðstæðum hnattvæðingar, samfélags- og atvinnubreytinga. Rannsóknarsviðin tíu sem sjónum verður einkum beint að eru: 

Öldrunarmál; Fjölskyldu- og barnamál; Mál aldurshópa og kynja; Lífeyrismál eldri borgara; Mál búferlaflutninga og nýbúa; Mál öryrkja og jaðarhópa; Mál samfélags- og atvinnuþátttöku; Samkeppnishæfni norrænu velferðarríkjanna í hnattvæddum heimi; Áhrifaþættir velferðarþróunar og breytinga á Norðurlöndum; Fátækt, einangrun og lífskjör norrænu þjóðanna í samanburði við aðrar vestrænar þjóðir. Þá verður sérstök áhersla lögð á aðferðafræði.

Öndvegissetrið mun skapa einstaka möguleika á öflugu rannsóknarsamstarfi og samhæfðum rannsóknum félagsvísindafólks milli landa. Það mun gangast fyrir öflugri birtingu á alþjóðlegum fræðavettvangi, alþjóðlegum ráðstefnum, kynningum og útgáfu efnis fyrir stjórnvöld og áhrifaaðila, námskeiðum og þjálfum fyrir doktorsnema, styrkjum til doktorsnema og kennaraskiptum, svo nokkuð sé nefnt. 

 

Íslenskir þátttakendur:

  • Guðný Björk Eydal
  • Jón Gunnar Bernburg
  • Kolbeinn Hólmar Stefánsson
  • Sigrún Júlíusdóttir
  • Sigurveig H. Sigurðardóttir
  • Sigurður Thorlacius
  • o.fl.